Um mig og hringlandi
Ég heiti Kristjana Björk og er konan á bak við hringlandi.
Hugmyndin að hringlandi varð til, eins og svo margar góðar hugmyndir, í fæðingarorlofi eða fæðingarorlofum. Ég eignaðist dóttur 2018 og byrjaði þá að hekla fyrir hana barnadót. Í fyrstu fylgdi ég uppskriftum annarra en fór svo að hekla hringlur upp úr eigin höfði. Það var þá sem hringlandi byrjaði, ég ætlaði að hekla hringlur og selja undir nafninu hringlandi. Úr því varð þó ekki en það var svo 2020 þegar ég eignaðist strákinn minn að ég ákvað að láta verða af þessu. Hugmyndin hefur breyst töluvert frá því sem hún var í upphafi en mér finnst viðeigandi að halda nafninu þar sem ég hef verið ansi hringlandi með þetta allt saman!
Það var árið 2010 sem handavinnuferðalagið mitt byrjaði. Það ár lærði ég að hekla og ég skellti mér í kennaranám. Þegar kom að því að velja kjörsvið í náminu gat ég ekki valið og tók þrjú; smíði, myndmennt og textílmennt. Fyrir meistaranámið þurfti ég þó að velja mér eitt kjörsvið og valdi þá textílmennt. Eftir að hafa klárað grunnnámið hérna heima hóf ég meistaranámið í Háskólanum í Helsinki. Í Finnlandi lærði ég fleiri handverksaðferðir á einu ári en mig hefði nokkurn tímann grunað að ég myndi læra út ævina. Bæði var skólinn góður og þar fyrir utan á ég einstaka handavinnuvinkonu sem hefur kennt mér svo margt (hi Iina if you are for some reason reading this).
Markmið mitt með hringlandi er að miðla þekkingu á gömlum handverksaðferðum. Mér er mikið í mun að halda þekkingunni á lofti og til þess finnst mér mikilvægt að vekja áhuga ungs fólks á hannyrðum almennt. Ég stefni á að bæta við fleiri aðferðum eftir því sem á líður og seinna meir langar mig að bæta við námskeiðum.
Ég hlakka mikið til þessa ævintýris og vona að þið munuð njóta með mér!