Vattarsaumur


Flík úr vattarsaumi lítur í fljótu bragði út eins og hún sé hekluð. Vattarsaumaðar flíkur eru yfirleitt þéttar í sér og eru endingargóðar og slitsterkar en þær hafa ekki sama teygjanleika og prjón. Í vattarsaum er notuð stór nál með stóru nálarauga. Nálarnar eru ýmist gerðar úr beini, horni, tré eða málmi. Nálinni er brugðið í gegnum lykkjur sem fyrir eru svo ekki er auðvelt að rekja sauminn upp. Lykkjurnar eru myndaðar utan um vinstri þumal með hægri hendi, það er því ekki stærð nálarinnar sem ræður stærð lykkjanna heldur stærð þumalsins. Engin regla er varðandi stærð nálar í vattarsaumi, einungis er nauðsynlegt að notanda finnist hún þægileg og að nálaraugað rúmi garnið. Gott er að hafa lítinn snúning á garninu til þess að auðvelt sé að skeyta endum saman. Í vattarsaumi er garn slitið frá dokkunni, t.d. 1 metri, og þegar sá garnspotti hefur verið notaður er svipuð lengd tekin aftur og garnendum skeytt saman. Til eru margar mismunandi aðferðir í vattarsaumi, eða mismunandi spor. Í rauninni er hægt er að vattarsauma hvað sem er en tæknin hefur að miklu leyti verið notuð til þess að gera vettlinga, sokka og húfur. Vitað er af konum í Svarfaðardal sem á 20. öldinni vattarsaumuðu síla, mjólkursíur úr kýrhalahári.

 

Saga vattarsaums á Íslandi


Vattarsaumur náði aldrei miklu flugi á Íslandi og hefur aldrei verið meira notaður en á víkingatímanum. Margir hafa eflaust velt því fyrir sér af hverju það er ekki meira um prjónaðar flíkur á víkingahátíðum hérlendis en það er vegna þess að prjónaþekking var ekki komin til landsins á víkingatímanum.

Á Íslandi var minna um að vettlingar væru vattarsaumaðir, þeir voru frekar saumaðir úr vaðmáli (ullarefni) því sú aðferð var fljótlegri. Vattarsaumurinn var mun þekktari á hinum Norðurlöndunum og þá sérstaklega í Svíþjóð og Finnlandi. Þegar prjónatæknin barst til Íslands á 16. öld kaus fólk þá aðferð mun frekar fram yfir vattarsauminn, vegna þess hve miklu fljótlegra það er að prjóna. Það má því segja að með prjóninu hafi vattarsaumurinn svo gott sem lagst af á Íslandi. Það er þó hægt að ná upp góðum hraða í vattarsaumi svo það er ekkert að hræðast!

 

Saga orðsins


Vattarsaumurinn varð það óþekktur á Íslandi að það var ekki fyrr en 1950 sem handverkstæknin fékk nafngift. En það var Kristján Eldjárn sem gaf henni nafnið vattarsaumur í grein sem hann skrifaði í bók sína Hundrað ár í þjóðminjasafni. Kristjáni þótti líklegt að vettlingar gerðir með þessari aðferð hefðu áður fyrr verið kallaðir bandvettir eða bandvettlingar til að greina þá frá vettlingum úr vaðmáli. Orðið vattarsaumur kemur frá orðinu vöttur, sem er gamalt íslenskt orð yfir vettlingur. Kristján kenndi aðferðina við vettlinga því eina vattarsaumaða flíkin sem hefur fundist á Íslandi frá fornöld er vettlingur. Sá vettlingur fannst árið 1889 og er talinn vera frá 10. Öld. Orðið nálbragð hefur líka verið notað yfir vattarsaum, en það orð er notað í nágrannalöndum okkar og á ensku (nalebinding/nalbinding).

 

Vattarsaumur á Íslandi í dag


Í dag eru ekki margir hér á landi sem kunna vattarsaum en þó einhverjir. Það er því miður sjaldséð sjón að sjá vattarsaumaðar flíkur en auga áhugamannsins dregst hratt að þeim þegar þær eru annars vegar. Markmið hringlandi er að halda kunnáttunni á lofti og með tíð og tíma halda námskeið í vattarsaumi. Þannig mun hópur vattarsaumara vonandi stækka og sá hópur þá hjálpað til við varðveislu þessarar skemmtilegu aðferðar.






 

 

 

 

 

 

Upplýsingar eru að mestu leyti fengnar úr bókinni Hundrað ár í þjóðminjasafni eftir Kristján Eldjárn.